Holmavik Tourist Information in Strandir

Vegalengdir til Hólmavíkur

19/07/2010 15:05

Upplýsingamiðstöðinni á Hólmavík hefur alloft borist fyrirspurnir um ástand vega og hvaða leiðir eru mest malbikaðar. Stysta leiðin frá Reykjavík til Hólmavíkur er 233 km. Leiðin er malbikuð alla leið ef valin er leiðin um Arnkötludal. Þá er ekið af þjóðvegi 1 við Dalsmynni í Borgarfirði inn á veg nr. 60 og síðan beygt til hægri inn á nýja veginn um Arnkötludal, veg nr. 61, skömmu eftir að ekið hefur verið í gegnum Króksfjarðarnes í Reykhólasveit.

Ef valin er leiðin frá Reykjavík um Holtavörðuheiði til Hólmavíkur er kílómetratalan 275 km. Þá er beygt inn á veg nr. 68 við Staðarskála í Hrútafirði og honum fylgt að gatnamótum við veg nr. 61 sem eru skammt sunnan Hólmavíkur. 39 km af þeirri leið eru á malarvegum.

Frá Akureyri til Hólmavíkur eru 336 km ef fylgt er þjóðvegi nr. 1. Þá er beygt inn á veg nr. 68 við Staðarskála í Hrútafirði og honum fylgt að gatnamótunum við veg nr. 61 sem eru skammt sunnan Hólmavíkur. 39 km af þeirri leið eru á malarvegum á Ströndum.

Einnig er hægt að velja veginn um Laxárdalsheiði sem liggur í átta að Búðardal skammt norðan við Borðeyri í Hrútafirði. Það er 15 km lengri leið frá Akureyri og þá er ekið um Dalina og um Arnkötludal. Sú leið er samtals 351 km frá Akureyri til Hólmavíkur, þar af 31 km á malarvegi yfir Laxárdalsheiði. Í tíma talið þá eru hvor leiðin sem valin er jafnlöng en líklegra auðveldara yfirferðar að velja leiðina um Dali og Arnkötludal ef dreginn er þungur tjaldvagn á eftir ökutækinu.

Frá Hólmavík til Ísafjarðar eru 225 km. Malbikað er frá Hólmavík alla leið til Ísafjarðar og þaðan til Þingeyrar. Upplýsingar um aðrar vegalengdir frá Hólmavík er að finna á síðu okkar með því að smella hér.

 

© 2013 - info@holmavik.is - Strandir Tourist Information Centre in Holmavik

Make a website for freeWebnode